Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 395. máls.

Þskj. 439  —  395. mál.



Frumvarp til laga

um Vatnajökulsþjóðgarð.

(Lagt fyrir Alþingi á 133. löggjafarþingi 2006–2007.)




I. KAFLI
Stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs og markmið.

1. gr.


Stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs og gildissvið.


    Umhverfisráðherra getur með reglugerð friðlýst Vatnajökul og helstu áhrifasvæði jökulsins. Friðlýsing Vatnajökulsþjóðgarðs tekur gildi við setningu reglugerðar um Vatnajökulsþjóðgarð.
    Landsvæði í Vatnajökulsþjóðgarði getur verið í eigu íslenska ríkisins eða í eigu annarra aðila enda liggi fyrir samþykki eiganda viðkomandi lands um að það verði hluti Vatnajökulsþjóðgarðs. Leita skal samþykkis viðkomandi sveitarstjórnar fyrir friðlýsingu landsvæðis í sveitarfélaginu.
    Lög þessi gilda um friðlýsingu, stjórn og rekstur Vatnajökulsþjóðgarðs og verndun náttúrufars innan þjóðgarðsins.

2. gr.
Markmið verndunar.

    Markmiðið með stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs er að vernda landslag, lífríki, jarðmyndanir og menningarminjar svæðisins og gefa almenningi kost á að kynnast og njóta náttúru þess og sögu. Auðvelda skal almenningi aðgengi að þjóðgarðinum eftir því sem unnt er án þess að náttúra hans spillist og veita fræðslu um náttúru, sögu og mannlíf svæðisins.
    Verndarstig einstakra svæða eða landslagsheilda innan Vatnajökulsþjóðgarðs skal taka mið af verndarmarkmiðum þjóðgarðsins og annarri landnýtingu á viðkomandi svæði í samræmi við alþjóðlegar viðmiðanir um þjóðgarða og friðlýst svæði.

3. gr.
Land í einkaeign innan þjóðgarðs.

    Heimilt er með samþykki landeiganda að friðlýsa land sem hluta Vatnajökulsþjóðgarðs. Gerður skal samningur milli umhverfisráðherra og landeiganda um slíka friðlýsingu þar sem m.a. kemur fram hvaða landnýting er heimil á svæðinu. Stjórn þjóðgarðsins hefur eftirlit með að samningar við landeigendur í þjóðgarðinum séu virtir.
    Svæðisráð skulu a.m.k. einu sinni á ári halda fund með eigendum lands á viðkomandi rekstrarsvæði og árlega skal halda sameiginlegan fund landeigenda, svæðisráða og stjórnar um málefni þjóðgarðsins.

II. KAFLI
Stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs.

4. gr.
Stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs.

    Vatnajökulsþjóðgarður er ríkisstofnun og fer umhverfisráðherra með yfirstjórn mála er varða þjóðgarðinn. Með stjórn stofnunarinnar og umsjón með rekstri þjóðgarðsins fer sérstök stjórn skipuð af umhverfisráðherra. Í stjórn skulu sitja: formenn allra svæðisráða þjóðgarðsins, einn fulltrúi tilnefndur af umhverfisverndarsamtökum og tveir fulltúar skipaðir af ráðherra án tilnefningar, þ.e. formaður og varaformaður, eða sjö fulltrúar alls. Varamenn skulu skipaðir á sama hátt. Stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs skal skipuð til fjögurra ára í senn.

5. gr.
Ákvarðanataka í stjórn og daglegur rekstur.

    Stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs skal funda eftir því sem ástæða þykir til en þó eigi sjaldnar en á þriggja mánaða fresti og skulu ákvarðanir hennar samkvæmt ákvæðum laga þessara teknar á fundum hennar. Svæðisráð getur ef það telur nauðsynlegt að leita eftir afstöðu eða ákvörðun stjórnar um tiltekið málefni óskað eftir því að haldinn sé fundur í stjórn þjóðgarðsins. Afl atkvæða ræður úrslitum mála á fundum stjórnar. Um ákvarðanir stjórnar gilda stjórnsýslulög. Stjórn þjóðgarðsins er heimilt að ráða sér framkvæmdastjóra eða gera samning við aðra opinbera stofnun eða fyrirtæki um að annast daglegan rekstur og umsýslu stjórnar.

6. gr.
Hlutverk stjórnar.

    Stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs hefur umsjón með náttúruvernd í Vatnajökulsþjóðgarði. Helstu verkefni stjórnar eru:
     1.      Stefnumótun í málefnum þjóðgarðsins í samræmi við markmið laga þessara.
     2.      Yfirumsjón með gerð tillögu að verndaráætlun og reglugerðar fyrir þjóðgarðinn.
     3.      Gerð fjárhagsáætlunar um rekstur þjóðgarðsins, ráðstöfun fjár til rekstrarsvæða og samþykkt rekstraráætlunar hvers svæðis.
     4.      Samræming á starfsemi rekstrarsvæða þjóðgarðsins.
     5.      Eftirlit með framkvæmd reglna þjóðgarðsins og verndaráætlunar.
     6.      Samstarf við stofnanir, sveitarfélög og hagsmunaaðila um málefni þjóðgarðsins.
    Ráðherra getur með reglugerð kveðið nánar á um verkefni og starfsemi stjórnar Vatnajökulsþjóðgarðs.

7. gr.
Rekstrarsvæði.

    Vatnajökulsþjóðgarður skiptist í fjögur rekstrarsvæði sem rekin skulu sem sjálfstæðar rekstrareiningar á ábyrgð þjóðgarðsvarða. Á hverju rekstrarsvæði skal starfa svæðisráð skipað af umhverfisráðherra til fjögurra ára í senn. Mörk rekstrarsvæða skulu tilgreind í reglugerð um Vatnajökulsþjóðgarð.
    Í svæðisráði skulu sitja þrír fulltrúar tilnefndir af sveitarstjórnum þeirra sveitarfélaga sem eru á viðkomandi rekstrarsvæði, einn fulltrúi tilnefndur af umhverfisverndarsamtökum og einn tilnefndur sameiginlega af ferðamálasamtökum á viðkomandi svæði. Svæðisráð kýs sér formann og varaformann.
    Þjóðgarðsvörður situr fundi svæðisráðs.

8. gr.
Hlutverk svæðisráða.

    Hlutverk svæðisráða Vatnajökulsþjóðgarðs er:
     1.      Að vera þjóðgarðsverði og stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs til ráðgjafar um málefni þjóðgarðsins á viðkomandi rekstrarsvæði.
     2.      Að vinna tillögu að verndaráætlun fyrir viðkomandi svæði.
     3.      Að gera tillögu að rekstraráætlun fyrir viðkomandi rekstrarsvæði innan þess fjárhagsramma sem því er ætlaður hverju sinni samkvæmt ákvörðun stjórnar.
     4.      Að gera tillögu að ráðningu þjóðgarðsvarða á viðkomandi rekstrarsvæði.

9. gr.
Þjóðgarðsverðir.

    Á hverju rekstrarsvæði skal starfa þjóðgarðsvörður sem ráðinn er af stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs samkvæmt tillögu viðkomandi svæðisráðs. Á þeim rekstrarsvæðum þar sem eru tvær meginstarfsstöðvar þjóðgarðsins er heimilt að ráða tvo þjóðgarðsverði. Stjórn ákveður verkaskiptingu milli þjóðgarðsvarða á sama rekstrarsvæði í samráði við svæðisráð, þ.m.t. með hvaða hætti ábyrgð þeirra skv. 1.–3. málsl. 1. mgr. 10. gr. er skipt, og skal verkaskiptingin koma fram í erindisbréfi þjóðgarðsvarða.

10. gr.
Hlutverk þjóðgarðsvarða.

    Þjóðgarðsvörður annast daglegan rekstur og stjórn viðkomandi rekstrarsvæðis í umboði stjórnar. Þjóðgarðsvörður ber ábyrgð á fjárreiðum og reikningshaldi gagnvart stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs. Þjóðgarðsvörður ræður annað starfsfólk þjóðgarðsins. Önnur helstu verkefni þjóðgarðsvarðar eru:
     1.      Að aðstoða svæðisráð við gerð tillögu að verndaráætlun fyrir viðkomandi rekstrarsvæði.
     2.      Að koma verndaráætlun þjóðgarðsins til framkvæmda innan þess fjárhagsramma sem viðkomandi rekstrarsvæði er ætlaður hverju sinni.
     3.      Að hafa eftirlit með því að farið sé eftir ákvæðum laga þessara og reglugerðar um Vatnajökulsþjóðgarð og að ákvæði verndaráætlunar fyrir þjóðgarðinn séu virt.
     4.      Samstarf við stofnanir, sveitarfélög, landeigendur og aðra hagsmunaaðila um málefni þjóðgarðsins.
     5.      Fræðsla um náttúruvernd á viðkomandi svæði og um Vatnajökulsþjóðgarð.

11. gr.
Hlutverk Umhverfisstofnunar.

    Umhverfisstofnun veitir aðstoð og faglega ráðgjöf við verkefni stjórnar og svæðisráða samkvæmt sérstökum samstarfssamningi.

III. KAFLI
Verndaráætlun Vatnajökulsþjóðgarðs.
12. gr.
Verndaráætlun.

    Eigi síðar en tveimur árum eftir stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs skal lokið gerð verndaráætlunar fyrir þjóðgarðinn.
    Í verndaráætlun skal gerð grein fyrir markmiðum verndar á einstökum svæðum innan Vatnajökulsþjóðgarðs, einstökum verndaraðgerðum, landnýtingu og mannvirkjagerð, vegum, reiðstígum, göngubrúm og helstu gönguleiðum, umferðarrétti almennings og aðgengi ferðamanna að svæðinu.
    Svæðisráðin, hvert á sínu svæði, skulu vinna tillögu að verndaráætlun í samráði við Umhverfisstofnun og Náttúrufræðistofnun Íslands. Tillaga hvers svæðisráðs skal send stjórn eigi síðar en 18 mánuðum eftir stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs. Við gerð verndaráætlunar skal svæðisráð hafa samráð við eigendur lands innan þjóðgarðs á viðkomandi svæði, sveitarstjórnir og aðra hagsmunaaðila á svæðinu.
    Stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs fer yfir tillögur svæðisráða og vinnur á grundvelli þeirra verndaráætlun fyrir Vatnajökulsþjóðgarð. Stjórn skal gæta þess að verndaráætlun samræmist ákvæðum laga og reglugerðar um Vatnajökulsþjóðgarð. Stjórn getur gert breytingar á tillögum svæðisráða. Tillaga stjórnar að verndaráætlun fyrir Vatnajökulsþjóðgarð skal unnin í samráði við Umhverfisstofnun og Náttúrufræðistofnun Íslands. Tillagan skal auglýst opinberlega og almenningi og hagsmunaaðilum gefinn kostur á að gera athugasemdir áður en endanleg tillaga er send ráðherra. Frestur til að gera athugasemdir við tillögu að verndaráætlun skal a.m.k. vera sex vikur frá birtingu auglýsingar.
    Tillaga stjórnar að verndaráætlun fyrir Vatnajökulsþjóðgarð skal send umhverfisráðherra til staðfestingar. Umhverfisráðherra getur gert breytingar á verndaráætlun telji hann hana eða einstaka hluta hennar fara í bága við lög þessi, reglugerð um Vatnajökulsþjóðgarð eða verndarmarkmið þjóðgarðsins. Þegar umhverfisráðherra hefur staðfest verndaráætlun fyrir Vatnajökulsþjóðgarð skal hún auglýst í B-deild Stjórnartíðinda og tekur hún gildi við birtingu.
    Heimilt er að gera breytingar á verndaráætlun og fer um málsmeðferð samkvæmt ákvæðum 3.–5. mgr. Stjórn þjóðgarðsins getur lagt til breytingar á verndaráætlun án þess að um það berist tillaga frá viðkomandi svæðisráði. Í þeim tilvikum skal ávallt leita umsagnar svæðisráðs áður en tillagan er send umhverfisráðherra. Verndaráætlun fyrir Vatnajökulsþjóðgarð skal endurskoðuð eigi sjaldnar en á 10 ára fresti.
    Ráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um efni verndaráætlunar og málsmeðferð við gerð og staðfestingu hennar.

13. gr.
Réttaráhrif verndaráætlunar.

    Sveitarstjórnir eru bundnar af efni verndaráætlunar við gerð skipulagsáætlana fyrir landsvæði innan Vatnajökulsþjóðgarðs.
    Mannvirkjagerð, vegagerð, stíga- og slóðagerð og hvers konar efnistaka innan Vatnajökulsþjóðgarðs er einungis heimil ef gert er ráð fyrir henni í verndaráætlun fyrir þjóðgarðinn eða að fengnu leyfi ráðherra. Við veitingu slíks leyfis eða í verndaráætlun er heimilt að setja skilyrði um hvernig framkvæmdum skuli háttað og um eftirlit með þeim til að tryggja að framkvæmdin raski ekki að óþörfu lífríki, jarðmyndunum eða landslagi í Vatnajökulsþjóðgarði. Ekki þarf sérstakt leyfi samkvæmt lögum þessum fyrir þeim framkvæmdum sem gert er ráð fyrir í verndaráætlun. Viðkomandi þjóðgarðsvörður hefur eftirlit með því að við framkvæmdir séu virt ákvæði laga þessara, reglugerðar um Vatnajökulsþjóðgarð og verndaráætlunar og að farið sé að þeim skilyrðum sem viðkomandi framkvæmd voru sett í verndaráætlun eða leyfi stjórnar. Að öðru leyti gilda ákvæði náttúruverndarlaga um framkvæmdir í Vatnajökulsþjóðgarði.

IV. KAFLI
Almennar meginreglur.
14. gr.
Bann við spjöllum og raski.

    Óheimilt er að valda spjöllum eða raski á lífríki, jarðmyndunum og landslagi innan Vatnajökulsþjóðgarðs. Allar framkvæmdir innan þjóðgarðsins skulu samræmast verndarmarkmiðum þjóðgarðsins samkvæmt ákvæðum laga þessara, reglugerða sem settar eru samkvæmt þeim og verndaráætlun þjóðgarðsins. Heimilar eru framkvæmdir sem miða að því að verja lífríki, jarðmyndanir og landsvæði, svo sem vegna ágangs manna, dýra eða plantna eða vegna náttúruhamfara, ágangs vatns og sjávar, jarðvegseyðingar eða annarrar röskunar af völdum manna eða náttúru.

15. gr.
Umferð í þjóðgarðinum.

    Setja skal í reglugerð ákvæði um umferð gangandi vegfarenda, ríðandi eða hjólandi manna og um umferð vélknúinna ökutækja í Vatnajökulsþjóðgarði.
    Akstur vélknúinna ökutækja utan vega í Vatnajökulsþjóðgarði er bannaður. Þó er heimilt að aka slíkum tækjum á jöklum og á leyfðum vetrarakstursleiðum, sbr. 3. mgr., svo fremi sem jörð er snævi þakin og frosin. Í reglugerð er heimilt að banna akstur vélknúinna ökutækja á einstökum svæðum á Vatnajökli allt árið um kring eða á tilteknum tímum ársins.
    Í reglugerð um Vatnajökulsþjóðgarð skal gerð sérstök grein fyrir öllum vegum sem heimilt er að aka innan þjóðgarðsins. Enn fremur skal skilgreina þau svæði þar sem heimilt er að aka að vetri á snjó eða frosinni jörð og hvaða skilyrðum slíkur akstur er bundinn. Heimilt er að takmarka umferð á einstökum vegum, slóðum eða svæðum við tiltekinn tíma ársins eða binda hana við tiltekna notkun, svo sem vegna veiða, smölunar búfjár eða annarra landbúnaðarstarfa eða vegna rannsókna, ef það er talið nauðsynlegt vegna verndunar viðkomandi landsvæðis.
    Liggi landsvæði undir skemmdum og talið er nauðsynlegt að grípa til tafarlausra aðgerða getur viðkomandi þjóðgarðsvörður tekið ákvörðun um tímabundna lokun afmarkaðs svæðis fyrir umferð vélknúinna ökutækja. Ákvörðun þjóðgarðsvarðar um tímabundna lokun svæðis skal birt í B-deild Stjórnartíðinda og með öðrum áberandi hætti í dagblöðum og á vefsíðu þjóðgarðsins.
    Ákvæði þessara laga um akstur utan vega í Vatnajökulsþjóðgarði ganga framar ákvæðum náttúruverndarlaga um sama efni og reglugerða sem settar eru samkvæmt þeim.

V. KAFLI
Þjónusta í Vatnajökulsþjóðgarði.
16. gr.
Þjónustustöðvar.

    Þjónusta og upplýsingar eru veittar á starfsstöðvum Vatnajökulsþjóðgarðs. Meginstarfsstöðvar þjóðgarðsins skulu staðsettar á eftirfarandi stöðum: Ásbyrgi, Mývatnssveit, Skriðuklaustri, Hornafirði, Skaftafelli og Kirkjubæjarklaustri. Ráðherra ákveður nánari staðsetningu meginstarfsstöðva þjóðgarðsins í reglugerð.
    Í þjóðgarðinum skulu enn fremur reknar upplýsinga- og þjónustumiðstöðvar þar sem almenningi er veitt fræðsla um náttúruvernd í Vatnajökulsþjóðgarði og þjónusta eftir því sem þörf krefur og samkvæmt nánari ákvörðun stjórnar þjóðgarðsins. Meginstarfsstöðvar, upplýsinga- og þjónustumiðstöðvar mynda þjónustunet þjóðgarðsins.

17. gr.
Samstarf stjórnar og svæðisráða.

    Stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs og svæðisráð einstakra rekstrarsvæða skulu vinna saman að málefnum þjóðgarðsins og markmiðum hans skv. 2. gr.
    Árlega skal haldinn sameiginlegur ársfundur stjórnar, Umhverfisstofnunar og svæðisráða Vatnajökulsþjóðgarðs þar sem fjallað skal um málefni þjóðgarðsins, kynningu hans og heildarstefnumörkun.
    Stjórn og rekstrarsvæði Vatnajökulsþjóðgarðs skulu hafa sameiginlega heimasíðu á vefnum þar sem almenningi eru veittar upplýsingar og fræðsla um Vatnajökulsþjóðgarð.

VII. KAFLI
Eftirlit og úrskurður um ágreining.
18. gr.
Eftirlit.

    Þjóðgarðsverðir, hver á sínu rekstrarsvæði, hafa eftirlit með því að virt séu ákvæði laga þessara, reglugerða sem settar eru samkvæmt þeim og verndaráætlunar fyrir Vatnajökulsþjóðgarð. Þjóðgarðsverðir annast samskipti við lögreglu og önnur eftirlitsstjórnvöld vegna brota á lögum þessum og reglugerðum sem settar eru samkvæmt þeim.
    Heimilt er þjóðgarðsverði að loka þjóðgarðinum eða einstökum svæðum hans fyrirvaralaust ef hann telur að dvöl manna eða umferð geti spillt lífríki, jarðmyndunum eða landslagi eða ef hættuástand skapast í þjóðgarðinum vegna náttúruvár.
    Þjóðgarðsverði eða öðrum starfsmönnum þjóðgarðsins er heimilt að vísa úr þjóðgarðinum hverjum þeim sem brýtur ákvæði laga þessara og reglugerðar um Vatnajökulsþjóðgarð.

19. gr.
Ágreiningur um framkvæmd laganna.

    Ákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laga þessara eru kæranlegar til umhverfisráðherra. Úrskurður ráðherra er endanlegur úrskurður á stjórnsýslustigi.
    Kærurétt samkvæmt þessari grein eiga þeir sem eiga lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun og umhverfisverndarsamtök sem varnarþing eiga á Íslandi, enda séu félagsmenn samtakanna 30 eða fleiri og það samrýmist tilgangi samtakanna að gæta þeirra hagsmuna sem kæran lýtur að. Umhverfisverndarsamtök teljast samtök sem hafa umhverfisvernd að meginmarkmiði. Þau skulu vera opin fyrir almennri aðild, gefa út ársskýrslur um starfsemi sína og hafa endurskoðað bókhald.

VIII. KAFLI
Ýmis ákvæði.
20. gr.
Reglugerð fyrir Vatnajökulsþjóðgarð.

    Stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs skal í samráði við svæðisráð og Umhverfisstofnun gera tillögu til ráðherra um reglugerð fyrir þjóðgarðinn. Í reglugerðinni skal kveðið á um stofnun þjóðgarðsins, mörk hans, verndun, verndarstig, staðsetningu meginstarfsstöðva, landnýtingu, þ.m.t. veiðar, meðferð skotvopna, búfjárbeit, eyðingu vargs, mörk rekstrarsvæða, umgengni, umferð, samgönguleiðir og mengunarvarnir.
    Drög að reglugerð um Vatnajökulsþjóðgarð skulu kynnt sveitarstjórnum á svæðinu, landeigendum og öðrum hagsmunaaðilum og þeim gefinn kostur á að gera athugasemdir við þau. Leita skal álits Náttúrufræðistofnunar Íslands á vistfræðilegu þoli þeirra svæða þar sem ætlunin er að veiðar og búfjárbeit verði heimil. Við setningu reglugerðarinnar skal við það miðað að landnýting innan þjóðgarðsins sé sjálfbær að mati Náttúrufræðistofnunar Íslands.

21. gr.
Gjaldtaka.

    Í reglugerð má ákveða að taka gestagjöld innan Vatnajökulsþjóðgarðs fyrir veitta þjónustu og aðgang að svæðinu til að mæta kostnaði við þjónustu og eftirlit með dvalargestum. Fjárhæð gjaldsins skal birt í reglugerð og byggjast á rekstraráætlun þjóðgarðsins alls sem stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs leggur fyrir umhverfisráðherra til samþykktar. Heimilt er að ákveða að gjaldið sé föst fjárhæð miðað við dagsdvöl í þjóðgarðinum og veiti aðgang að þjónustu á vegum þjóðgarðsins á öllum rekstrarsvæðum hans. Heimilt er þó að innheimta sérstaklega fyrir aðgang að tjaldstæðum innan þjóðgarðsins. Heimilt er að veita afslátt af gjaldinu ef greitt er fyrir lengri tíma í senn eða ef greitt er fyrir marga aðila í einu. Gestagjöld skulu renna til Vatnajökulsþjóðgarðs óháð því á hvaða rekstrarsvæði þau eru innheimt. Ráðherra ákveður nánara fyrirkomulag gjaldtöku í reglugerð að fengnum tillögum stjórnar þjóðgarðsins.

22. gr.
Refsiábyrgð og dagsektir.

    Brot gegn lögum þessum og reglugerðum sem settar eru samkvæmt þeim varða sektum eða fangelsi allt að tveimur árum. Sektir renna í ríkissjóð.
    Beita má dagsektum er renna í ríkissjóð, allt að 500.000 kr., til að knýja menn til framkvæmda á ráðstöfunum sem þeim er skylt að hlutast til um samkvæmt lögum þessum og reglugerðum eða láta af atferli sem er ólögmætt.

23. gr.     
Breytingar á lögum um náttúruvernd, nr. 44/1999, með síðari breytingum.

    Eftirfarandi breytingar verða á lögum um náttúruvernd, nr. 44/1999, með síðari breytingum:
     a.      Við 1. mgr. 38. gr. bætist nýr málsliður svohljóðandi: Um framkvæmdir í Vatnajökulsþjóðgarði gilda lög um Vatnajökulsþjóðgarð.
     b.      Á eftir orðunum „sbr. 51. gr.“ í a-lið 50. gr. kemur: og lög um Vatnajökulsþjóðgarð.
     c.      Við 51. gr. bætist ný málsgrein svohljóðandi:
                  Ákvæði þessa kafla taka ekki til Vatnajökulsþjóðgarðs, sbr. lög um Vatnajökulsþjóðgarð.

24. gr.
Gildistaka.

    Lög þessi taka gildi 1. maí 2007.

Ákvæði til bráðabirgða.


     1.      Stjórn og svæðisráð Vatnajökulsþjóðgarðs skulu skipuð fyrir 1. júní 2007.     
     2.      Unnið skal að kortlagningu vega og heimilla vetrarakstursleiða í Vatnajökulsþjóðgarði, sbr. 3. mgr. 15. gr., samhliða gerð verndaráætlunar fyrir þjóðgarðinn.
     3.      Starfsmenn Skaftafellsþjóðgarðs og þjóðgarðsins í Jökulsárgljúfrum skulu eiga forgangsrétt til starfa í Vatnajökulsþjóðgarði á fyrsta starfsári þjóðgarðsins. Ákvæði 7. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, gilda ekki um störf sem ráðið er í samkvæmt þessum tölulið.
     4.      Ákvæði laga þessara um stjórnfyrirkomulag Vatnajökulsþjóðgarðs skulu eigi síðar en 1. janúar 2013 endurskoðuð í samstarfi ríkis og sveitarfélaga.


Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


1. Forsaga málsins.
    Frumvarp þetta er samið í umhverfisráðuneytinu og er með því lagður grunnur að stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs. Málið á sér nokkuð langan aðdraganda en vorið 1999 samþykkti Alþingi þingsályktunartillögu þar sem umhverfisráðherra var falið að kanna möguleika á stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs. Í nóvember sama ár skipaði umhverfisráðherra starfshóp til að skoða í samvinnu við skipulagsyfirvöld og hugsanlega rétthafa lands möguleika á stofnun þjóðgarðsins. Starfshópurinn skilaði áliti sínu til ráðherra í mars árið 2000 og var skýrsla starfshópsins kynnt á Alþingi á vorþingi sama ár. Í byrjun árs 2002 skipaði umhverfisráðherra aðra nefnd til að vinna áfram að undirbúningi málsins. Sú nefnd skilaði tillögum til ráðherra í október 2002 og lagði til að stofnaður yrði sem fyrst þjóðgarður sem markaðist af jaðri Vatnajökuls en næði að auki til núverandi Skaftafellsþjóðgarðs og hins friðlýsta náttúruvættis við Lakagíga.
    Í október 2002 skipaði umhverfisráðherra nefnd með fulltrúum þingflokka á Alþingi undir forystu umhverfisráðuneytisins til að vinna tillögur um stofnun þjóðgarðs eða verndarsvæðis norðan Vatnajökuls. Í nefndinni áttu sæti þingmennirnir Arnbjörg Sveinsdóttir, Magnús Stefánsson, Steingrímur J. Sigfússon og Össur Skarphéðinsson, auk Magnúsar Jóhannessonar, ráðuneytisstjóra í umhverfisráðuneytinu. Nefndin skilaði skýrslu sinni til umhverfisráðherra í maí 2004 og lagði til að hafist yrði handa við undirbúning að stofnun þjóðgarðs sem tæki til jökulsins alls og viðamikilla áhrifasvæða hans norðan jökuls, þ.m.t. Jökulsár á Fjöllum allt til sjávar. Taldi nefndin að líta bæri á Vatnajökul og svæðið norðan hans sem eina heild enda hefði jökullinn afgerandi áhrif á landmótun svæðanna í kring. Taldi nefndin að vinna ætti að stofnun eins þjóðgarðs með megináherslu á samspil elds og íss og landmótunaráhrif Vatnajökuls.
    Í febrúar 2003 skipaði umhverfisráðherra ráðgjafarnefnd til að vera Umhverfisstofnun, þá Náttúruvernd ríkisins, og ráðuneytinu til ráðgjafar um undirbúning að stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs sem næði til jökulhettunnar og hins friðlýsta svæðis við Lakagíga. Ráðgjafarnefndin skilaði tillögum sínum að mörkum fyrsta áfanga þjóðgarðsins til ráðherra í mars 2004. Í kjölfarið, eða 28. október 2004, staðfesti umhverfisráðherra með reglugerð stækkun Skaftafellsþjóðgarðs sem fyrsta áfanga í stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs. Stækkunin fól í sér þreföldun á flatarmáli þjóðgarðsins og náði þjóðgarðurinn þá meðal annars yfir 57% af Vatnajökli auk Lakagígasvæðisins. Skaftafellsþjóðgarður er eftir stækkun stærsti þjóðgarður Evrópu.
    Ríkisstjórn Íslands samþykkti hinn 25. janúar 2005 að fela umhverfisráðherra að vinna áfram að undirbúningi að stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs á grundvelli tillagna þingmannanefndarinnar frá í maí 2004 og þeirra hugmynda sem þar komu fram um þjóðgarð sem tæki til Vatnajökuls og helstu áhrifasvæða jökulsins. Var umhverfisráðherra falið að vinna þennan undirbúning í nánu samráði við heimamenn og aðra hagsmunaaðila. Segja má að sú vinna sem fram fór á vegum þingmannanefndarinnar og tillögur hennar leggi grunn að þeirri nálgun við verkefnið sem byggt er á í frumvarpi þessu.
    Frumvarpið hefur verið unnið í umhverfisráðuneytinu samhliða starfi sérstakrar ráðgjafarnefndar sem umhverfisráðherra skipaði 30. nóvember 2005 til að vinna að undirbúningi málsins. Í nefndinni áttu sæti fulltrúar allra sveitarfélaga á því svæði sem rætt hefur verið um að Vatnajökulsþjóðgarður nái til auk fulltrúa umhverfisverndarsamtaka og formanns skipaðs af umhverfisráðherra. Nánar tiltekið var nefndin skipuð eftirtöldum aðilum: Magnús Jóhannesson umhverfisráðuneyti, formaður; Elvar Árni Lund aðalmaður og varamaður Einar Ófeigur Björnsson, tilnefndir sameiginlega af Kelduneshreppi og Öxafjarðarhreppi; Eydís Indriðadóttir aðalmaður, og varamaður Kristinn Guðnason, tilnefnd sameiginlega af Ásahreppi og Rangárþingi ytra; Guðrún M. Valgeirsdóttir aðalmaður, og varamaður Sigurður Skúlason, tilnefnd sameiginlega af Skútustaðahreppi og Þingeyjarsveit; Skúli Björn Gunnarsson aðalmaður og varamaður Rannveig Árnadóttir, tilnefnd sameiginlega af Fljótsdalshreppi og Fljótsdalshéraði; Árni Jón Elíasson aðalmaður og varamaður Elín Heiða Valsdóttir, tilnefnd af Skaftárhreppi; Halldóra B. Jónsdóttir aðalmaður og varamaður Sigurlaug Gissurardóttir, tilnefndar af Sveitarfélaginu Hornafirði; Ingólfur Ásgeir Jóhannesson og varamaður Ulla R. Pedersen, tilnefnd sameiginlega af frjálsum félagasamtökum.
    Ráðgjafarnefndin (hér eftir nefnd ráðgjafarnefnd umhverfisráðuneytisins) fór yfir og fjallaði ítarlega um alla helstu þætti málsins og fór yfir drög að frumvarpi um Vatnajökulsþjóðgarð sem unnið var af hálfu umhverfisráðuneytisins samhliða starfi nefndarinnar. Þannig fjallaði nefndin um æskileg mörk þjóðgarðsins, annars vegar raunhæf fyrstu mörk þjóðgarðsins og æskilega framtíðarstækkun hans hins vegar. Þá fjallaði nefndin um uppbyggingu þjónustunets þjóðgarðsins og fyrirkomulag stjórnar og rekstrar og samgönguleiðir innan þjóðgarðsins. Nefndin lagði mat á kostnað við uppbyggingu þjónustunets þjóðgarðsins og rekstur hans og gerði tillögur að forgangsröðun framkvæmda við uppbyggingu þjónustunets Vatnajökulsþjóðgarðs og enn fremur æskilega forgangsröðun við lagfæringu samgönguleiða innan þjóðgarðsins. Í almennum athugasemdum með frumvarpi þessu er vísað til niðurstöðu ráðgjafarnefndarinnar um framangreind atriði en skýrsla nefndarinnar fylgir frumvarpinu í fylgiskjali. Frumvarpið er í öllum grundvallaratriðum í samræmi við hugmyndir ráðgjafarnefndarinnar um stjórnfyrirkomulag og skipulag þjóðgarðsins.
    
2. Almennt um stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs.
    Svæði það sem hugmyndir eru um að Vatnajökulsþjóðgarður nái yfir er einstakt frá náttúruverndarsjónarmiði hvort sem litið er til Íslands eða á heimsvísu. Við undirbúning málsins var leitað til Náttúrufræðistofnunar Íslands sem tók saman skýrslu um náttúrufar og verndargildi svæðisins og til Magnúsar Tuma Guðmundssonar jarðfræðings um jarðfræðileg einkenni og sérstöðu Vatnajökuls og gosbeltisins norðan hans. Þær greinargerðir varpa skýru ljósi á þá sérstöðu sem svæðið hefur í náttúrufarslegu tilliti. Á það hefur verið bent að þessi sérkenni séu slík að vernd þeirra sem heildar gæti uppfyllt strangar kröfur heimsminjaskrár UNESCO.
    Sú landnýting sem ákveðin verður fyrir svæðið með stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs felur í sér vernd einstakrar náttúru náttúru og landslagsheilda sem mun vekja athygli innan lands sem utan. Þessi landnýting er að mati flestra þeirra sem að undirbúningi málsins hafa komið til þess fallin að styrkja byggð og atvinnustarfsemi í nágrenni þjóðgarðsins og er því enn fremur unnt að líta á stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs sem mikilvæga aðgerð til að efla byggð á svæðinu.
    Vatnajökulsþjóðgarður verður stærsti þjóðgarður á Íslandi og jafnframt stærsti þjóðgarður Evrópu. Gert er ráð fyrir að tveir núverandi þjóðgarðar, þ.e. Skaftafellsþjóðgarður og þjóðgarðurinn í Jökulsárgljúfrum, renni strax í upphafi inn í Vatnajökulsþjóðgarð. Landssvæðið sem rætt hefur verið um að Vatnajökulsþjóðgarður nái til tekur til stjórnsýslu átta sveitarfélaga og hafa sveitarfélögin lagt áherslu á beina aðkomu að stjórn og rekstri þjóðgarðsins. Samkvæmt gildandi náttúruverndarlögum, nr. 44/1999, er stjórn og rekstur þjóðgarða í höndum Umhverfisstofnunar og hafa sveitarstjórnir einungis átt óbeina aðkomu að þeim rekstri með setu í ráðgjafarnefnd sem heimilt er samkvæmt lögunum að ráðherra skipi. Hlutverk ráðgjafarnefndanna hefur einungis verið ráðgefandi og hafa sveitarfélögin lagt á það áherslu að aðkoma þeirra að stjórn og rekstri Vatnajökulsþjóðgarðs verði meiri en samkvæmt gildandi lögum. Vegna þess og ekki síður vegna umfangs verkefnisins, bæði landfræðilega og rekstrarlega, var það talið rétt að sett yrðu sérstök lög um Vatnajökulsþjóðgarð.
    Í frumvarpi þessu er lagður rammi fyrir Vatnajökulsþjóðgarð sérstaklega hvað varðar stjórnfyrirkomulag hans og rekstur. Eins og með þjóðgarða samkvæmt náttúruverndarlögum er gert ráð fyrir að friðlýsing þjóðgarðsins taki gildi við setningu reglugerðar um hann. Þar verði dregin mörk þjóðgarðsins og settar nákvæmar reglur fyrir einstök svæði hans. Á því tímamarki þarf að liggja fyrir samkomulag við eigendur lands innan þjóðgarðsins. Vatnajökulsþjóðgarður er samkvæmt frumvarpinu ríkisstofnun sem tekur til starfa strax innan mánaðar frá gildistöku laganna en friðlýsing landsvæðisins tekur ekki gildi fyrr en við setningu reglugerðarinnar eins og áður segir. Gera má ráð fyrir að undirbúningur málsins, þ.m.t. gerð samninga við landeigendur og gerð reglugerðar um Vatnajökulsþjóðgarð, taki nokkra mánuði eftir gildistöku laganna verði frumvarpið samþykkt.
    Annar munur sem gert er ráð fyrir að verði á Vatnajökulsþjóðgarði og öðrum þjóðgörðum sem þegar hafa verið stofnaðir hér á landi er að gert er ráð fyrir að hluti þess landsvæðis sem hann tekur til verði í einkaeign. Slíkt er reyndar heimilt samkvæmt gildandi náttúruverndarlögum en allir núverandi þjóðgarðar eru þrátt fyrir það í eigu ríkisins. Af hálfu umhverfisráðuneytisins hefur þegar verið rætt við eigendur þess lands sem til greina kemur að verði hluti Vatnajökulsþjóðgarðs og hafa þeim verið kynntar hugmyndir að stofnun og markmiðum þjóðgarðsins og leitað eftir afstöðu þeirra til hugmyndanna. Viðbrögð hafa verið mismunandi en þær viðræður munu halda áfram við frekari undirbúning málsins af hálfu ráðuneytisins. Fyrir liggur að þónokkur hluti þess lands sem fyrirhugað er að verði innan Vatnajökulsþjóðgarðs er þó í ríkiseign, þ.m.t. þjóðgarðarnir í Jökulsárgljúfrum og Skaftafelli og nokkrar jarðir í umsjá umhverfisráðuneytis og landbúnaðarráðuneytis og í eigu Landgræðslu Íslands. Einhver hluti svæðisins mun vera þjóðlenda en málsmeðferð óbyggðanefndar á grundvelli laga nr. 58/1998, um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta, er ekki lokið nema hvað varðar hluta svæðisins.
    Í undirbúningi að stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs hefur verið lögð áhersla á mikilvægi þess að svæðið allt, jökulinn og áhrifasvæði hans, sé skoðað sem ein heild og að þjóðgarðurinn með Vatnajökul sem kjarna og áhrifasvæði allt í kring séu einn þjóðgarður sem lúti einni yfirstjórn. Enn fremur er á því byggt að stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs taki mið af því að stofnun, stjórn og rekstur hans uppfylli alþjóðleg viðmið þjóðgarða og friðlýstra svæða og að þjóðgarðurinn geti uppfyllt kröfur heimsminjaskrár UNESCO, ákveði íslensk stjórnvöld að sækjast eftir því að Vatnajökulsþjóðgarður fari inn á þá skrá síðar.
    
3. Hugmyndir um mörk Vatnajökulsþjóðgarðs.
    Nefnd um stofnun verndarsvæðis norðan Vatnajökuls sem skilaði tillögu til umhverfisráðuneytisins í maí 2004 gerði tilögur um mörk verndarsvæðis fyrir svæðið norðan Vatnajökuls. Í meginatriðum var ráðgjafarnefnd umhverfisráðuneytisins sammála þeim tillögum að mörkum þjóðgarðsins norðan Vatnajökuls þegar til lengri tíma er litið. Ítarleg gögn og greinargerðir um náttúrufar svæðisins, ásamt mati á verndargildi þess sem Náttúrufræðistofnun Íslands hefur tekið saman, lágu m.a. til grundvallar umræðu nefndanna um mörk þjóðgarðsins. Með hliðsjón af því að töluverður hluti þessa lands er í einkaeign eða háð nýtingarrétti eru mörkin háð endanlegu samkomulagi við eigendur og umráðamenn viðkomandi lands. Taldi ráðgjafarnefndin ekki raunhæft að stofna svo víðáttumikinn þjóðgarð strax eins og lagt var til í tillögum þingmannanefndarinnar, heldur rétt að byrja heldur þrengra og að uppbygging og rekstur þjóðgarðsins fengi að sanna sig áður en leitað væri frekara samkomulags við landeigendur.
    Í þessu ljósi taldi ráðgjafarnefndin æskilegt að við stofnun taki Vatnajökulsþjóðgarður í fyrsta lagi til alls Vatnajökuls. Norðan jökuls taki þjóðgarðurinn til þjóðgarðsins í Jökulsárgljúfrum og meginárfarvega Jökulsár á Fjöllum frá upphafi til ósa. Jafnframt væri æskilegt að árfarvegur Kreppu og landspilda að lágmarki 150–200 m á bökkum beggja árfarvega fylgdi með ásamt Kverkfjöllum og Krepputungu. Þá taki þjóðgarðurinn til Herðubreiðarlinda, Öskju, Trölladyngju, Tugnafellsjökuls og Vonarskarðs, Hvannalinda og Kringilsárrana, Snæfells og Vesturöræfa, Eyjabakkasvæðisins og hluta Múla og Hrauna. Allt athafnasvæði Kárahnjúkavirkjunar verði utan þjóðgarðsins. Að sunnanverðu taki Vatnajökulsþjóðgarður við stofnun til núverandi Skaftafellsþjóðgarðs, auk Lónsöræfa, Heinabergsjökuls og fjallendisins og jökulminja ofan byggðalínu í landi Flateyjar á Mýrum, fjalllendis ofan Skálafells, Steinadals og vesturhluta Kálfafellsdals, Hágönguhrauns og Tungnaáröræfa.
    Eins og áður segir hefur af hálfu umhverfisráðuneytisins verið rætt við eigendur þess lands sem til greina kemur að verði hluti Vatnajökulsþjóðgarðs og þeim kynntar hugmyndir að stofnun og markmiðum þjóðgarðsins og leitað eftir afstöðu þeirra til hugmyndanna. Viðbrögð hafa verið mismunandi en þær viðræður munu halda áfram við frekari undirbúning málsins af hálfu ráðuneytisins.
    Ráðgjafarnefndin var sammála um að ástæða væri til að kanna ítarlega möguleika á stækkun þjóðgarðsins síðar. Þar komi til álita fjölmörg aðliggjandi svæði, sem líkleg eru til að styrkja þjóðgarðinn og mynda mikilvægar landslagsheildir. Þannig verði markmiðum verndunar Vatnajökuls og áhrifasvæðis hans enn betur náð. Nefndin taldi að markviss framkvæmd tillagna hennar muni auka áhuga og samstöðu um stækkun hans, hvort heldur er hjá almenningi í landinu, íbúum nærliggjandi sveitarfélaga eða viðkomandi eigendum lands í einkaeigu.
    Þau svæði sem helst hafa verið nefnd sem hugsanleg viðbót við Vatnajökulsþjóðgarð síðar eru eftirtalin:
    Norðursvæði: Ódáðahraun og Herðubreiðarfjöll, efsti hluti Suðurár og Suðurárbotnar.
    Austursvæði: Brúaröræfi og svæði á Jökuldalsheiði.
    Suðursvæði: Fjalllendi við Hoffelsjökul og Jökulsárlón.
    Vestursvæði: Nær öll jaðarsvæði Vatnajökuls, þ.e. frá Núpsstaðaskógum til Veiðivatnasvæðis, eftir atvikum mismunandi langt frá jökli.
    Rætt hefur verið við flesta eigendur þessara landsvæða en þær viðræður eru á frumstigi.

4. Verndarstig svæða þjóðgarðsins og landnýting innan hans.
    Leiðbeiningar Alþjóðlegu náttúruverndarsamtakanna (IUCN) um þjóðgarða og friðlýst svæði skilgreina náttúruverndarsvæði og skipta þeim í sex flokka. Lagt er til að svæði innan Vatnajökulsþjóðgarðs verði skilgreind samkvæmt þessari flokkun með hliðsjón af verndun og hugsanlegri landnýtingu svæðisins. Gert er ráð fyrir að innan Vatnajökulsþjóðgarðs muni landeigendur og ábúendur geta viðhaldið þeirri hefðbundnu nýtingu sem viðgengst hefur fram til þessa á svæðum innan þjóðgarðsins. Í meginatriðum er hér um að ræða búfjárbeit og veiðar af ýmsu tagi, svo sem fuglaveiðar, hreindýraveiðar og veiðar í ám og vötnum. Einnig munu koma til álita framkvæmdir sem nauðsynlegar kunna að verða vegna möguleika á skemmdum á náttúruperlum innan þjóðgarðsins, svo sem vegna flóða í ám eða jarðvegseyðingar. Veiðum á ref og mink verður stýrt af sveitarstjórnum, eins og verið hefur, í samráði við viðkomandi svæðisráð og þjóðgarðsverði. Flokkun svæða eftir verndarstigi og heimilli landnýtingu mun fara fram við undirbúning að setningu reglugerðar um þjóðgarðinn og verndaráætlunar.

5. Stjórnfyrirkomulag Vatnajökulsþjóðgarðs.
    Í tillögum þingmannanefndarinnar frá því í maí 2004 komu fram mjög ákveðnar tillögur um skýra aðild heimamanna og fulltrúa umhverfisverndarsamtaka að stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs. Sömu sjónarmið komu fram í starfi ráðgjafarnefndar umhverfisráðuneytisins. Ljóst var að þessar tillögur kölluðu á annað stjórnfyrirkomulag en verið hefur í þeim þjóðgörðum sem fram að þessu hafa verið stofnaðir á grundvelli náttúruverndarlaga. Sérstaða Vatnajökulsþjóðgarðs er slík varðandi stærð og fjölbreytileika að honum verður ekki líkt við aðra þjóðgarða á Íslandi og því hefur verið lögð áhersla á að um hann verði sett sérstök lög.
    Í frumvarpi þessu er gert ráð fyrir að Vatnajökulsþjóðgarður verði ríkisstofnun sem lúti sérstakri sjö manna stjórn skipaðri af umhverfisráðherra. Stjórnin verði skipuð formönnum svæðisráða, einum fulltrúa umhverfisverndarsamtaka og tveimur sem ráðherra skipar án tilnefningar, þ.e. formann og varaformann. Gert er ráð fyrir að stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs hafi umsjón með náttúruvernd í þjóðgarðinum og helstu verkefni hennar verði eftirfarandi:
     1.      Stefnumótun í málefnum þjóðgarðsins í samræmi við markmið laga um Vatnajökulsþjóðgarð.
     2.      Yfirumsjón með gerð tillögu að verndaráætlun og reglugerðar fyrir þjóðgarðinn.
     3.      Gerð fjárhagsáætlunar um rekstur þjóðgarðsins, ráðstöfun fjár til rekstrarsvæða og samþykkt rekstraráætlunar hvers svæðis.
     4.      Samræming á starfsemi rekstrarsvæða þjóðgarðsins.
     5.      Eftirlit með framkvæmd reglna þjóðgarðsins og verndaráætlunar.
     6.      Samstarf við stofnanir, sveitarfélög og hagsmunaaðila um málefni þjóðgarðsins.
    Lagt er til að Vatnajökulsþjóðgarði verði skipt í fjögur rekstrarsvæði undir stjórn þjóðgarðsvarða sem ábyrgð beri á daglegum rekstri viðkomandi svæðis. Enn fremur verði á hverju svæði skipað sérstakt svæðisráð sem umhverfisráðherra skipar. Gert er ráð fyrir að í svæðisráðum eigi sæti þrír fulltrúar þeirra sveitarfélaga sem eru á viðkomandi rekstrarsvæði, einn fulltrúi tilnefndur af umhverfisverndarsamtökum og einn tilnefndur af landshlutabundnum ferðamálasamtökum. Lagt er til að verkefni svæðisráða samkvæmt frumvarpinu verði:
     1.      Að vera þjóðgarðsverði og stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs til ráðgjafar um málefni þjóðgarðsins á viðkomandi rekstrarsvæði.
     2.      Að vinna tillögu að verndaráætlun fyrir viðkomandi svæði.
     3.      Að gera tillögu að rekstraráætlun fyrir viðkomandi rekstrarsvæði innan þess fjárhagsramma sem því er ætlaður hverju sinni samkvæmt ákvörðun stjórnar.
     4.      Gera tillögu að ráðningu þjóðgarðsvarða á viðkomandi rekstrarsvæði.
    Gert er ráð fyrir að þjóðgarðsverðir séu ráðnir af stjórn þjóðgarðsins samkvæmt tillögu viðkomandi svæðisráðs en annað starfsfólk þjóðgarðsins ráði þjóðgarðsvörður. Helstu verkefni þjóðgarðsvarða verði að koma verndaráætlun þjóðgarðsins til framkvæmda, hafa eftirlit með því að lög um Vatnajökulsþjóðgarð og ákvæði verndaráætlunar fyrir þjóðgarðinn séu virt, hafa samstarf við stofnanir, sveitarfélög, landeigendur og aðra hagsmunaaðila um málefni þjóðgarðsins og fræðsla um náttúruvernd á viðkomandi svæði og um Vatnajökulsþjóðgarð.
    Ekki er gert ráð fyrir að formlegt ákvörðunarvald verði í höndum svæðisráða en hins vegar er í frumvarpinu leitast við að tryggja áhrif þeirra á ákvarðanatöku innan þjóðgarðsins. Er það m.a. gert með því að fela þeim að vinna tillögu að verndaráætlun fyrir viðkomandi svæði, en gert er ráð fyrir að verndaráætlun þjóðgarðsins verði meginstjórntæki hans og í henni felist allar meiri háttar ákvarðanir um málefni þjóðgarðsins innan ramma laganna, svo sem um verndun, landnýtingu, framkvæmdir og uppbyggingu. Formlega er gert ráð fyrir að stjórn þjóðgarðsins leggi eina heildarverndaráætlun fyrir þjóðgarðinn fyrir ráðherra til staðfestingar en sú verndaráætlun byggist að meginstefnu til á tillögum einstakra svæðisráða. Einnig er gert ráð fyrir að svæðisráð geri tillögu að rekstraráætlun fyrir viðkomandi rekstrarsvæði innan þess fjárhagsramma sem því er ætlaður hverju sinni samkvæmt ákvörðun stjórnar þjóðgarðsins. Endanleg rekstraráætlun svæðanna verði hins vegar samþykkt af stjórn þjóðgarðsins. Er þetta gert til að tryggja að svæðisráð geti haft áhrif á það hvernig fjármunum þjóðgarðsins á svæðinu er ráðstafað. Síðan er það á ábyrgð þjóðgarðsvarða að tryggja að daglegur rekstur þjóðgarðsins sé innan fjárheimilda.
    Ráðgjafarnefndin lagði til að stjórnfyrirkomulag þjóðgarðsins verði endurskoðað í ljósi reynslunnar eigi síðar en 1. janúar 2013.

6. Rekstrarsvæði og þjónustunet þjóðgarðsins.
    Eins og áður segir er lagt til að Vatnajökulsþjóðgarði verði skipt í fjórar sjálfstæðar rekstrareiningar sem annist daglegan rekstur tiltekinna svæða þjóðgarðsins. Svæðið sem gert er ráð fyrir að þjóðgarðurinn taki til við stofnun, að því gefnu að fullt samkomulag náist við eigendur lands í einkaeign, er u.þ.b. 13.400 km 2 og nær til átta sveitarfélaga. Svæðið þekur um 13% af yfirborði Íslands. Af hagkvæmnisástæðum er því margt sem mælir með því að skipta þjóðgarðinum upp í smærri rekstrareiningar, en náttúruverndarrök styðja eindregið að svæðið allt verði samt sem áður einn þjóðgarður.
    Í tillögum ráðgjafarnefndar umhverfisráðherra koma fram hugmyndir um landfræðilega skiptingu þjóðgarðsins í rekstrarsvæði. Gerð er grein fyrir tillögum nefndarinnar í fylgiskjali með frumvarpi þessu. Endanleg skipting svæðana mun verða gerð í reglugerð um Vatnajökulsþjóðgarð.
    Hluti af stofnun þjóðgarðsins er að koma upp neti upplýsinga- og þjónustustaða þjóðgarðsins. Lagt er til að þjónustunetið byggist á þremur einingum; gestastofum, sem jafnframt verða skrifstofur þjóðgarðsvarða (meginstarfsstöðvar þjóðgarðsins), starfsstöðvum landvarða og upplýsingastöðvum, þar sem þjóðgarðurinn geri þjónustusamninga við aðra rekstraraðila í nágrenni þjóðgarðsyns. Í dag er gestastofa í Skaftafelli auk þess sem unnið er að byggingu gestastofu í Ásbyrgi og er stefnt að því að hún verði opnuð vorið 2007. Ráðgjafarnefndin lagði til að fjórar nýjar gestastofur verði reistar til viðbótar, þ.e. ein á hverju rekstrarsvæði þjóðgarðsins. Lagt er til að þessar fjórar gestastofur og meginstarfsstöðvar verði í Mývatnssveit, á Skriðuklaustri, við Höfn í Hornafirði og við Kirkjubæjarklaustur. Miðað við þessa uppbyggingu er stefnt að því að tvær gestastofur verði á tveimur rekstrarsvæða þjóðgarðsins þ.e. á norður- og suðursvæðinu, en það eru umfangsmestu svæði þjóðgarðsins.
    Gestastofurnar og skrifstofur þjóðgarðsvarða verða meginstarfsstöðvar þjóðgarðsins og þaðan verður landvörslu og daglegum rekstri hvers rekstrarsvæðis þjóðgarðsins stjórnað. Koma verður upp starfsstöðvum landvarða á hverju rekstrarsvæði og er reiknað með að fjöldi þeirra fari að nokkru leyti eftir eðli og aðstæðum á hverju rekstrarsvæði. Núna er landvarsla á vegum Umhverfisstofnunar innan marka fyrirhugaðs þjóðgarðs, að undanskildum þjóðgörðunum í Jökulsárgljúfrum og Skaftafelli, á fjórum stöðum. Ráðgjafarnefndin telur að við stofnun þjóðgarðsins þurfi landvörslustaðir hins vegar að vera 11, þ.e. í Vesturdal, Herðubreiðarlindum, Öskju/Dreka, Kverkfjöllum og Hvannalindnum, við Snæfell, á Lónsöræfum, Heinabergssvæðinu og Lakagígasvæðinu, við Nýjadal og Vonarskarð og í Hrauneyjum. Flestir landvörslustaðirnir eru fjarri byggð og verður því að gera þar ráð fyrir bústöðum fyrir landverði, auk aðstöðu fyrir kynningu á þjóðgarðinum og viðkomandi svæði og fyrir dreifingu bæklinga ásamt salernisaðstöðu fyrir gesti, vinnuaðstöðu og geymslu. Á sumum friðlýstum svæðum hefur landvarsla verið rekin í samvinnu við aðra rekstraraðila, svo sem ferðafélög, og gert er ráð fyrir að slíkt samstarf haldi áfram innan Vatnajökulsþjóðgarðs eftir stofnun hans.
    Þriðja einingin í þjónustuneti þjóðgarðsins er lagt til að verði upplýsingastöðvar við jaðar þjóðgarðsins eða í nágrenni hans. Þar er lagt til að gerðir verði þjónustusamningar við rekstraraðila sem fyrir eru á svæðunum um það að sinna upplýsingagjöf um þjóðgarðinn auk þess sem komið verði upp kynningu og fræðslu um þjóðgarðinn og viðkomandi svæði. Samkvæmt tillögum ráðgjafarnefndarinnar gætu slíkir rekstrarsamningar verið gerðir í upphafi reksturs þjóðgarðsins við rekstraraðila á Grímsstöðum, í Möðrudal, á Skálafelli/Hala, í Bárðarbúð/Kiðagili, á Aðalbóli, í Suðurárbotnum og Hoffelli.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í ákvæðinu er umhverfisráðherra heimilað að friðlýsa Vatnajökul og helstu áhrifasvæði jökulsins með reglugerð. Eins og þjóðgarðar sem stofnaðir eru á grundvelli náttúruverndarlaga er gert ráð fyrir að friðlýsing þjóðgarðsins taki gildi við setningu reglugerðar um hann. Þar verði dregin mörk þjóðgarðsins og settar nákvæmar reglur fyrir einstök svæði hans. Á því tímamarki þarf að liggja fyrir samkomulag við eigendur lands innan þjóðgarðsins.
    Í 2. mgr. er tekið fram að landsvæði innan Vatnajökulsþjóðgarðs geti bæði verið í ríkiseigu og í einkaeign. Hingað til hafa þjóðgarðar á Íslandi einungis verið stofnaðir á ríkislandi þó að heimild sé fyrir hendi í náttúruverndarlögum um að land í eigu annarra geti verið hluti þjóðgarðs. Einungis er í frumvarpi þessu gert ráð fyrir að einkaland geti orðið hluti þjóðgarðsins með samþykki landeiganda og eru því engar eignarnámsheimildir í frumvarpinu. Í 2. málsl. 2. mgr. er áskilið að samþykki sveitarstjórnar þurfi til að landsvæði á hennar umráðasvæði geti orðið hluti Vatnajökulsþjóðgarðs.
    Í frumvarpinu eru settar reglur um hvernig staðið skuli að friðlýsingu þjóðgarðsins og settur rammi um stjórnfyrirkomulag hans og rekstur, auk þess sem settar eru almennar meginreglur um markmið verndar náttúrufars innan þjóðgarðsins, um framkvæmdir innan þjóðgarðs, umferð og aðra umgengni. Um er að ræða rammalöggjöf um þjóðgarðinn en síðan er gert ráð fyrir að ítarlegri reglur um alla framkvæmd verði settar í reglugerð.

Um 2. gr.


    Í ákvæðinu er markmiðum með stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs lýst. Markmiðið er að vernda landslag, lífríki, jarðmyndanir og menningarminjar svæðisins og gefa almenningi kost á að kynnast og njóta náttúru þess og sögu. Þessi markmið skulu höfð að leiðarljósi við framkvæmd laganna, við setningu reglugerðar um þjóðgarðinn og við gerð verndaráætlunar fyrir hann.
    Í 2. mgr. kemur fram að verndarstig einstakra svæða eða landslagsheilda innan Vatnajökulsþjóðgarðs skuli taka mið af verndarmarkmiðum þjóðgarðsins og annarri landnýtingu á viðkomandi svæði í samræmi við alþjóðlegar viðmiðanir um þjóðgarða og friðlýst svæði. Leiðbeiningar Alþjóðlegu náttúruverndarsamtakanna (IUCN) um þjóðgarða og friðlýst svæði skilgreina náttúruverndarsvæði og skipta þeim í sex flokka. Lagt er til að svæði innan Vatnajökulsþjóðgarðs verði skilgreind samkvæmt þessari flokkun með hliðsjón af verndun og hugsanlegri landnýtingu svæðisins. Gert er ráð fyrir að innan Vatnajökulsþjóðgarðs muni landeigendur og ábúendur geta viðhaldið þeirri hefðbundnu nýtingu sem viðgengst hefur fram til þessa á svæðum innan þjóðgarðsins. Í meginatriðum er hér um að ræða búfjárbeit og veiðar af ýmsu tagi, svo sem fuglaveiðar, hreindýraveiðar og veiðar í ám og vötnum. Einnig munu koma til álita framkvæmdir sem nauðsynlegar kunna að verða vegna möguleika á skemmdum á náttúruperlum innan þjóðgarðsins, svo sem vegna flóða í ám eða jarðvegseyðingar. Flokkun svæða eftir verndarstigi og heimilli landnýtingu mun fara fram við setningu reglugerðar um þjóðgarðinn og gerð verndaráætlunar.

Um 3. gr.


    Í ákvæðinu er fjallað nánar um friðlýsingu lands í einkaeign, sbr. einnig 2. mgr. 1. gr. Gerður skal samningur milli viðkomandi landeiganda og umhverfisráðherra um friðlýsinguna þar sem m.a. skal koma fram hvaða landnýting er heimil á svæðinu. Við flokkun viðkomandi svæðis eftir verndarstigi, sbr. 2. mgr. 2. gr., verður þá að taka mið af samningum við viðkomandi landeiganda og haga reglum á svæðinu í samræmi við það. Hafi t.d. verið um það samið að landeiganda sé áfram heimil búfjárbeit eða veiðar á svæðinu ber umhverfisráðherra við setningu reglugerðar um þjóðgarðinn að gæta þess að haga reglum á viðkomandi svæði þannig að slík landnýting sé heimil. Skilyrði er þó ávallt að um sjálfbæra landnýtingu sé að ræða, sbr. 2. mgr. 20. gr. Stjórn þjóðgarðsins hefur síðan eftirlit með því að samningar við landeigendur í þjóðgarðinum séu virtir, m.a. við gerð verndaráætlunar og aðra framkvæmd laganna.
    Samkvæmt 2. mgr. skal svæðisráð a.m.k. einu sinni á ári halda fund með eigendum lands á viðkomandi rekstrarsvæði. Einnig skal árlega halda sameiginlegan fund landeigenda, svæðisráða og stjórnar þjóðgarðsins. Er þetta ákvæði sett til að tryggja að virkt samráð eigi sér stað milli þeirra sem ábyrgð bera á rekstri þjóðgarðsins og þeirra sem land eiga innan hans og að þeir séu upplýstir um málefni þjóðgarðsins.

Um 4. gr.


    Í ákvæðinu kemur fram að Vatnajökulsþjóðgarður sé ríkisstofnun undir yfirstjórn umhverfisráðherra. Með stjórn stofnunarinnar og umsjón með rekstri þjóðgarðsins fer sérstök sjö manna stjórn skipuð af umhverfisráðherra. Í stjórn skulu eiga sæti formenn svæðisráðanna fjögurra auk fulltrúa umhverfisverndarsamtaka og tveir fulltrúar skipaðir af ráðherra án tilnefningar. Tveir síðastnefndu fulltrúarnir skulu vera formaður og varaformaður stjórnar.
    Í ákvæði til bráðabirgða er gert ráð fyrir að stjórn og svæðisráð þjóðgarðsins séu skipuð fyrir 1. júní 2007 og er þannig gert ráð fyrir að stofnunin taki þegar til starfa þó að friðlýsing þjóðgarðsins taki ekki gildi fyrr en með setningu reglugerðar um Vatnajökulsþjóðgarð. Fram að þeim tíma munu stjórn og svæðisráð vinna að undirbúningi málsins í samráði við umhverfisráðuneytið. Þar sem Vatnajökulsþjóðgarður er ríkisstofnun eru þjóðgarðsverðir og annað starfsfólk þjóðgarðsins ríkisstarfsmenn og lúta þar af leiðandi öllum þeim almennu reglum sem um slíka starfsmenn gilda, svo sem lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996.

Um 5. gr.


    Í ákvæðinu er fjallað um ákvarðanatöku í stjórn og daglegan rekstur hennar. Allar formlegar ákvarðanir stjórnar skulu teknar á fundum hennar en stjórn er heimilt að ráða sér framkvæmdastjóra eða gera samning við stofnun eða fyrirtæki um að annast daglegan rekstur og umsýslu stjórnar. Um ákvarðanir stjórnar gilda stjórnsýslulög, nr. 37/1993. Gert er ráð fyrir að stjórn fundi ekki sjaldnar en á þriggja mánaða fresti en auk þess getur svæðisráð ávallt óskað eftir fundi í stjórn ef það telur nauðsynlegt að leita eftir afstöðu eða ákvörðun stjórnar um tiltekið málefni.

Um 6. gr.


    Í ákvæðinu eru talin upp verkefni stjórnar Vatnajökulsþjóðgarðs. Stjórnin hefur umsjón með náttúruvernd í Vatnajökulsþjóðgarði og ber ábyrgð á rekstri þjóðgarðsins sem ríkisstofnunar. Gert er ráð fyrir að stjórn geri fjárhagsáætlun fyrir þjóðgarðinn í heild og ráðstafi fé sem hann fær úthlutað á fjárlögum til einstakra rekstrarsvæða. Hvert svæðisráð gerir tillögu að rekstraráætlun svæðisins og skal hún samþykkt af stjórn þjóðgarðsins. Að lokum er það viðkomandi þjóðgarðsvörður sem ber ábyrgð á að rekstur svæðisins sé í samræmi við fjárheimildir og rekstraráætlun.
    Stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs ber ábyrgð á allri stefnumótun í málefnum þjóðgarðsins og hefur yfirumsjón með gerð tillögu að verndaráætlun þjóðgarðsins og reglugerðar fyrir þjóðgarðinn. Verndaráætlunin er eitt meginstjórntæki þjóðgarðsins til stefnumótunar og við gerð hennar getur stjórn þjóðgarðsins enn fremur tryggt samræmingu á starfsemi rekstrarsvæða, en slík samræming er eitt af meginverkefnum stjórnar. Gert er ráð fyrir að stjórn hafi eftirlit með framkvæmd reglna þjóðgarðsins og verndaráætlunar. Ábyrgð á eftirliti með framkvæmd laganna er þannig í höndum stjórnar en um daglega framkvæmd á eftirliti innan þjóðgarðsins sjá þjóðgarðsverðir.

Um 7. gr.


    Lagt er til að Vatnajökulsþjóðgarði verði skipt í fjórar sjálfstæðar rekstrareiningar á ábyrgð þjóðgarðsvarða sem annist daglegan rekstur tiltekinna svæða þjóðgarðsins. Svæðið sem gert er ráð fyrir að þjóðgarðurinn taki til við stofnun er það stórt að hagkvæmnisástæður mæla með því að þjóðgarðinum sé skipt upp í smærri rekstrareiningar, en náttúruverndarrök styðja eindregið að svæðið allt verði samt sem áður einn þjóðgarður. Gert er ráð fyrir að mörk rekstrarsvæðanna verði tilgreind í reglugerð.
    Á hverju rekstrarsvæði skal auk þjóðgarðsvarðar starfa fimm manna svæðisráð skipað af umhverfisráðherra. Í svæðisráði skulu sitja þrír fulltrúar sveitarstjóna á viðkomandi rekstrarsvæði, fulltrúi umhverfisverndarsamtaka og fulltrúi ferðamálasamtaka á viðkomandi svæði. Samkvæmt þeirri skiptingu í rekstrarsvæði sem ráðgjafarnefnd umhverfisráðherra lagði til taka þrjú af fjórum rekstrarsvæðum til stjórnsýslu þriggja sveitarfélaga hvert, þ.e. norður-, austur- og vestursvæði. Í þeim tilvikum tilnefnir hvert sveitarfélag einn fulltrúa í svæðisráðið. Í einhverjum tilvikum á sama sveitarfélagið fulltrúa í tveimur svæðisráðum samkvæmt tillögum ráðgjafarnefndarinnar. Suðursvæðið mun væntanlega einungis ná yfir eitt sveitarfélag, þ.e. Sveitarfélagið Hornafjörð og tilnefnir það sveitarfélag þá þrjá fulltrúa í það svæðisráð. Hvað varðar fulltrúa umhverfisverndarsamtaka þá er í gildi samstarfssamningur umhverfisráðuneytisins og frjálsra félagasamtaka og mun væntanlega verða leitað til þess vettvangs með óskir um tilnefningar bæði í svæðisráð og stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs. Séu fleiri en ein ferðamálasamtök starfandi á viðkomandi rekstrarsvæði mun verða leitað eftir sameiginlegum tilnefningum samtakanna.

Um 8. gr.


    Í ákvæðinu er gerð grein fyrir hlutverki svæðisráða. Svæðisráð skulu vera þjóðgarðsverði og stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs til ráðgjafar um málefni þjóðgarðsins á viðkomandi rekstrarsvæði. Ekki er gert ráð fyrir að formleg ákvarðanataka fari fram innan svæðisráðanna en þó er gert ráð fyrir að áhrif þeirra á stjórn þjóðgarðsins séu töluverð. Helstu áhrifin felast í því að svæðisráðin gera tillögu að rekstraráætlun fyrir viðkomandi rekstrarsvæði innan þess fjárhagsramma sem því er ætlaður hverju sinni samkvæmt ákvörðun stjórnar. Tillagan skal lögð fyrir stjórn þjóðgarðsins til samþykktar, sbr. 6. gr. Einnig vinna þau tillögu að verndaráætlun fyrir svæðið sem síðan er send stjórn þjóðgarðsins sem sameinar tillögur svæðisráðanna fjögurra í eina heildarverndaráætlun fyrir þjóðgarðinn. Að lokum er gert ráð fyrir að svæðisráð geri tillögu að ráðningu þjóðgarðsvarða á viðkomandi rekstrarsvæði.

Um 9. gr.


    Samkvæmt ákvæðinu skal á hverju rekstrarsvæði starfa þjóðgarðsvörður sem ráðinn er af stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs samkvæmt tillögu viðkomandi svæðisráðs. Þjóðgarðsverðir eru ríkisstarfsmenn og lúta almennum lögum sem um slíka starfsmenn gilda, svo sem lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996. Þar sem rekstrarsvæðin eru fjögur en meginstarfsstöðvar þjóðgarðsins sex samkvæmt frumvarpinu er í 2. málsl. heimild til að ráða tvo þjóðgarðsverði á þau rekstrarsvæði þar sem starfsstöðvarnar eru tvær. Sé sú heimild nýtt skal stjórn þjóðgarðsins ákveða verkaskiptingu milli þjóðgarðsvarða á sama rekstrarsvæði þannig að ljóst sé hvor þeirra beri ábyrgð skv. 1.–3. málsl. 1. mgr. 10. gr. eða hvernig henni sé með öðrum hætti skipt þeirra á milli.

Um 10. gr.


    Í greininni er fjallað um hlutverk þjóðgarðsvarða. Þeir annast daglegan rekstur og stjórn á viðkomandi rekstrarsvæði í umboði stjórnar. Þjóðgarðsverðir ráða starfsfólk þjóðgarðsins á viðkomandi rekstrarsvæði. Þjóðgarðsverðir skulu vinna í nánu samstarfi við svæðisráð á viðkomandi rekstrarsvæði og m.a. aðstoða þau við gerð tillögu að verndaráætlun fyrir svæðið. Einnig skulu þeir koma verndaráætlun þjóðgarðsins eftir að hún hefur verið samþykkt til framkvæmda innan þess fjárhagsramma sem viðkomandi rekstrarsvæði er ætlaður hverju sinni. Eftirlit á svæðinu, samstarf við stofnanir, sveitarfélög, landeigendur og aðra hagsmunaaðila og fræðsla um náttúruvernd eru einnig verkefni þjóðgarðsvarða.

Um 11. gr.


    Þar sem gert er ráð fyrir að stjórnfyrirkomulag í Vatnajökulsþjóðgarði verði með öðrum hætti en í öðrum þjóðgörðum sem stofnaðir eru á grundvelli náttúruverndarlaga, er ekki gert ráð fyrir að Umhverfisstofnun hafi aðkomu að stjórnun og rekstri þessa þjóðgarðs. Hlutverk stofnunarinnar verður hins vegar að veita aðstoð og faglega ráðgjöf við verkefni stjórnar og svæðisráða samkvæmt sérstökum samstarfssamningi.

Um 12. gr.


    Hér er fjallað um gerð verndaráætlunar fyrir þjóðgarðinn en lagt er til að gerð hennar verði lokið eigi síðar en tveimur árum eftir stofnun hans. Verndaráætlun er eitt meginstjórntæki þjóðgarðsins og verkfæri til stefnumótunar. Í henni skal gerð grein fyrir markmiðum verndar á einstökum svæðum innan Vatnajökulsþjóðgarðs, einstökum verndaraðgerðum, landnýtingu og mannvirkjagerð, vegum, reiðstígum, göngubrúm og helstu gönguleiðum, umferðarrétti almennings og aðgengi ferðamanna að svæðinu.
    Gert er ráð fyrir að hvert svæðisráð vinni með aðstoð þjóðgarðsvarða tillögu að verndaráætlun fyrir viðkomandi svæði. Stjórn þjóðgarðsins dragi síðan tillögur svæðisráðanna fjögurra í eina heildarverndaráætlun fyrir þjóðgarðinn. Stjórn þjóðgarðsins gætir þess að verndaráætlunin samræmist ákvæðum laga og reglugerðar um Vatnajökulsþjóðgarð og getur gert breytingar á tillögum svæðisráða. Bæði svæðisráð og stjórn skulu vinna tillögur sínar í samráði við Umhverfisstofnun og Náttúrufræðistofnun Íslands. Stjórn auglýsir tillögu að verndaráætlun og skal almenningi og hagsmunaaðilum gefinn kostur á að gera athugasemdir við tillöguna. Verndaráætlunin er að lokum send umhverfisráðherra til staðfestingar. Gert er ráð fyrir að verndaráætlunin sé endurskoðuð eigi sjaldnar en á 10 ára fresti en ávallt er heimilt að gera á henni breytingar. Í slíkum tilvikum er málsmeðferðin sú sama og við gerð verndaráætlunarinnar en þó er gert ráð fyrir að stjórn geti lagt slíkar breytingar til án þess að um það berist tillaga frá svæðisráði. Er þetta talið eðlilegt í ljósi ábyrgðar stjórnar á gerð verndaráætlunar. Óeðlilegt væri að stjórn þyrfti að bíða eftir tillögu frá svæðisráði til að geta gert t.d. lítilsháttar óumdeildar breytingar á verndaráætluninni. Gert er ráð fyrir að í þeim tilvikum verði þó ávallt leitað umsagnar svæðisráðs auk þess sem tillagan verði auglýst og almenningi og öðrum hagsmunaaðilum gefinn kostur á að gera athugasemdir.

Um 13. gr.


    Í greininni er fjallað um réttaráhrif verndaráætlunar. Gert er ráð fyrir að sveitarstjórnir séu bundnar af efni hennar við gerð skipulagsáætlana fyrir landsvæði innan þjóðgarðsins. Þannig er verndaráætlunin eins konar ígildi skipulags fyrir þjóðgarðinn enda óeðlilegt ef sveitarstjórnir gætu í skipulagsáætlunum sínum ákveðið aðra landnotkun en þar er heimil samkvæmt ákvörðun þjóðgarðsyfirvalda.
    Í 2. mgr. kemur fram að mannvirkjagerð, vegagerð, stíga- og slóðagerð og hvers konar efnistaka innan landsvæðis Vatnajökulsþjóðgarðs sé einungis heimil ef gert er ráð fyrir henni í verndaráætlun fyrir þjóðgarðinn eða að fengnu leyfi ráðherra. Gert er ráð fyrir að óskað verði leyfis ráðherra í undantekningartilfellum, t.d. áður en verndaráætlun hefur tekið gildi eða þegar ekki vinnst tími til að gera breytingar á verndaráætlun. Gert er ráð fyrir að við leyfisveitingu eða í verndaráætlun verði heimilt að setja framkvæmdum skilyrði í því skyni að tryggja að framkvæmdir raski ekki að óþörfu lífríki, jarðmyndunum eða landslagi í þjóðgarðinum. Sé gert ráð fyrir framkvæmdum í verndaráætlun þarf ekki leyfi þjóðgarðsyfirvalda fyrir þeim heldur gilda þá um þær almennar reglur annarra laga. Sé um að ræða framkvæmdir sem þurfa byggingar- eða framkvæmdaleyfi samkvæmt skipulags- og byggingarlögum, nr. 73/1997, þá gilda ákvæði þeirra laga um slíka leyfisveitingu. Ákvæði náttúruverndarlaga gilda um framkvæmdir í Vatnajökulsþjóðgarði að því marki sem þau samræmast ákvæðum frumvarpsins. T.d. gilda ákvæði náttúruverndarlaga um efnistöku í Vatnajökulsþjóðgarði að öðru leyti en því að ekki þarf að leita umsagnar Umhverfisstofnunar áður en framkvæmdaleyfi fyrir slíkri efnistöku er veitt ef gert er ráð fyrir henni í verndaráætlun og Umhverfisstofnun hefur ekki eftirlit með slíkri efnistöku heldur þjóðgarðsyfirvöld samkvæmt ákvæðum þessa frumvarps. Hins vegar gilda almenn ákvæði náttúruverndarlaga um frágang efnistökusvæðis og áætlun um efnistöku innan Vatnajökulsþjóðgarðs.

Um 14. gr.


    Í ákvæðinu er almenn meginregla um bann við spjöllum og raski á lífríki, jarðmyndunum og landslagi innan Vatnajökulsþjóðgarðs. Sambærilegt ákvæði er í náttúruverndarlögum varðandi önnur friðlýst svæði. Tekið er fram að heimilar eru framkvæmdir sem miða að því að verja lífríki, jarðmyndanir og landsvæði, svo sem vegna ágangs manna, dýra eða plantna eða vegna náttúruhamfara, ágangs vatns og sjávar, jarðvegseyðingar eða annarrar röskunar af völdum manna eða náttúru.

Um 15. gr.


    Fjallað er um umferð í Vatnajökulsþjóðgarði í þessari grein frumvarpsins. Gert er ráð fyrir að sett verði í reglugerð ákvæði um umferð gangandi vegfarenda, ríðandi eða hjólandi manna og um umferð vélknúinna ökutækja í Vatnajökulsþjóðgarði. Í 2.–4. mgr. eru sérreglur um akstur vélknúinna ökutækja í Vatnajökulsþjóðgarði sem gilda framar ákvæðum náttúruverndarlaga um sama efni. Lagt er til að allur akstur vélknúinna ökutækja utan vega í Vatnajökulsþjóðgarði verði bannaður. Þó verði heimilt að aka slíkum tækjum á jöklum og skilgreindum vetrarakstursleiðum. Gert er ráð fyrir að allir þeir vegir sem heimilt verði að aka í þjóðgarðinum verði kortlagðir og kortið birt í reglugerð um þjóðgarðinn. Þannig verði tryggt að ekki leiki neinn vafi á því hvar heimilt sé að aka inni í þjóðgarðinum. Nýmæli er hér að gert er ráð fyrir að ekki verði almennt heimilt að aka á snjó heldur að skilgreindar verði sérstakar vetrarakstursleiðir sem heimilt verði að aka þegar jörð er snævi þakin og frosin. Þannig verði unnt að stýra vetrarumferð þannig að hún sé einungis á þeim svæðum sem þola slíka umferð og ekki er talin hætta á skemmdum. Frumvarpið veitir svigrúm til að þessar leiðir verði skilgreindar fremur rúmt en einnig að unnt verði að banna umferð allan ársins hring á þeim svæðum þar sem það er talið nauðsynlegt.
    Í 4. mgr. er heimild til handa þjóðgarðsvörðum til að loka tímabundið svæðum sem liggja undir skemmdum, t.d. á vorin þegar snjóa leysir. Getur verið um að ræða skilgreinda vetrarakstursleið eða veg þar sem umferð er annars heimil. Slíkar ákvarðanir þjóðgarðsvarða um tímabundna lokun skulu auglýstar í B-deild Stjórnartíðinda og með öðrum áberandi hætti í dagblöðum og á vefsíðu þjóðgarðsins.

Um 16. gr.


    Í greininni er skilgreint hvers konar þjónusta verður veitt í Vatnajökulsþjóðgarði. Er gert ráð fyrir að meginstarfsstöðvar þjóðgarðsins verði sex talsins en auk þeirra verði reknar á vegum þjóðgarðsins upplýsinga- og þjónustumiðstöðvar þar sem almenningi er veitt fræðsla um náttúruvernd í Vatnajökulsþjóðgarði og þjónusta eftir því sem þörf krefur.

Um 17. gr.


    Í ákvæðinu er fjallað um samstarf stjórnar og svæðisráða þjóðgarðsins. Fram kemur að þessir aðilar skuli vinna saman að málefnum þjóðgarðsins og markmiðum hans. Haldinn skal sameiginlegur ársfundur og sameiginleg heimasíða þjóðgarðsins á vefnum.

18. gr.

    Í ákvæðinu er fjallað um eftirlit með framkvæmd laga um Vatnajökulsþjóðgarð, reglugerðar sem sett er samkvæmt þeim og verndaráætlunar fyrir þjóðgarðinn. Þjóðgarðsverðir annast allt daglegt eftirlit í umboði stjórnar þjóðgarðsins. Brot á lögum um Vatnajökulsþjóðgarð eða reglugerð getur leitt til brottvísunar úr þjóðgarðinum sbr. 3. mgr.
    Í 2. mgr. er heimild til handa þjóðgarðsverði til að loka þjóðgarðinum fyrirvaralaust ef ef hann telur að dvöl manna eða umferð geti spillt lífríki, jarðmyndunum eða landslagi eða ef hættuástand skapast í þjóðgarðinum vegna náttúruvár. Sambærileg ákvæði hafa gilt í öðrum þjóðgörðum hér á landi. Við lokun þjóðgarðsins vegna náttúruvár hefur þjóðgarðsvörður samráð við lögreglu og almannavarnaryfirvöld á viðkomandi svæði.

Um 19. gr.


    Hér er fjallað um kærurétt vegna ákvarðana sem teknar eru á grundvelli laganna. Heimilt er skv. 1. mgr. að kæra slíkar ákvarðanir til ráðherra. Kærurétt eiga þeir aðilar sem tilgreindir eru í 2. mgr. Ákvæði um kæruaðild umhverfisverndarsamtaka eru sambærileg við ákvæði skipulags- og byggingarlaga, nr. 73/1997, og laga um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000, sbr. breytingarlög nr. 74/2005.

Um 20. gr.


    Hér er fjallað um reglugerð um Vatnajökulsþjóðgarð. Stjórn þjóðgarðsins gerir í samráði við svæðisráð og Umhverfisstofnun tillögu til ráðherra um reglugerð fyrir þjóðgarðinn. Drög að reglugerðinni skulu kynnt sveitarstjórnum, landeigendum og öðrum hagsmunaaðilum og þeim gefinn kostur á að gera athugasemdir. Tekið er fram að við setningu reglugerðarinnar skuli við það miðað að landnýting innan þjóðgarðs sé sjálfbær. Er Náttúrufræðistofnun Íslands samkvæmt ákvæðinu ætlað að leggja á það mat hvert sé vistfræðilegt þol þeirra svæða þar sem ætlunin er að veiðar og búfjárbeit verði heimil og hvenær landnýting telst sjálfbær.

Um 21. gr.


    Í ákvæðinu er lagt til að ákveða megi með reglugerð að taka gestagjöld innan Vatnajökulsþjóðgarðs fyrir veitta þjónustu og aðgang að svæðinu til að mæta kostnaði við þjónustu og eftirlit með dvalargestum. Gestagjöld eru sértekjur þjóðgarðsins en tekið er fram að þau renna til hans óháð því á hvaða rekstrarsvæði þau eru innheimt. Gert er ráð fyrir að um hefðbundið þjónustugjald sé að ræða og ekki er gert ráð fyrir að það verði innheimt annars staðar en þar sem þjónusta á vegum þjóðgarðsins er veitt. Samkvæmt ákvæðinu er heimilt að jafna gjaldinu þannig út að það sé föst fjárhæð miðað við dagsdvöl á svæðinu í stað þess að greitt sé miðað við tegund þeirrar þjónustu sem veitt er. Heimilt er þó að innheimta sérstaklega fyrir afnot af tjaldstæðum innan þjóðgarðsins óháð því hvort tekið er gjald fyrir aðgang að annarri þjónustu. Einnig er heimilt að veita afslátt af gjaldinu ef greitt er fyrir lengri tíma, t.d. viku, mánuð eða ár, eða ef greitt er fyrir marga í einu.

Um 22. gr.


    Í greininni er fjallað um viðurlög og dagsektir vegna brota á lögunum eða reglugerð um Vatnajökulsþjóðgarð.

Um 23. gr.


    Í ákvæðinu eru lagðar til breytingar á lögum um náttúruvernd, nr. 44/1999. Breytingarnar eru nauðsynlegar til að ljóst sé að ákvæði þeirra laga um stjórn þjóðgarða sem stofnaðir eru á grundvelli náttúruverndarlaga taki ekki til Vatnajökulsþjóðgarðs. Í a-lið er tekið fram að um framkvæmdir í Vatnajökulsþjóðgarði gildi sérákvæði laga um Vatnajökulsþjóðgarð. Því þarf ekki að leita leyfis Umhverfisstofnunar fyrir slíkum framkvæmdum í Vatnajökulsþjóðgarði eins og í öðrum þjóðgörðum og friðlýstum svæðum. Tekið er fram að VII. kafli náttúruverndarlaga um friðlýstar náttúruminjar taki ekki til Vatnajökulsþjóðgarðs þó að hann teljist til friðlýstra náttúruminja samkvæmt skilgreiningu 50. gr. laganna. Samkvæmt þessu ganga sérreglur laga um Vatnajökulsþjóðgarð almennt framar almennum ákvæðum náttúruverndarlaga. Hins vegar gilda náttúruverndarlög að því marki sem ekki er sérstaklega kveðið á um í lögum um Vatnajökulsþjóðgarð. T.d. gilda ákvæði III. kafla náttúruverndarlaga um almannarétt, umgengni og útivist í Vatnajökulsþjóðgarði enda ekki fjallað sérstaklega um þau atriði í frumvarpinu. Í frumvarpinu er hins vegar gert ráð fyrir að settar verði sérreglur um umferð gangandi vegfarenda, ríðandi eða hjólandi manna og um umferð vélknúinna ökutækja í Vatnajökulsþjóðgarði og ganga þær reglur þá framar ákvæðum náttúruverndarlaga um sama efni.

Um 24. gr.


    Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.

Um ákvæði til bráðabirgða.


    Í 1. tölul. er lagt til að stjórn og svæðisráð verði skipuð fyrir 1. júlí 2007 þannig að Vatnajökulsþjóðgarður sem ríkisstofnun taki þegar til starfa og vinni í upphafi að undirbúningi að friðlýsingu Vatnajökulsþjóðgarðs.
    Samkvæmt 2. tölul. er gert ráð fyrir að kortlagning vega og heimilla akstursleiða í þjóðgarðinum fari fram samhliða gerð verndaráætlunar fyrir þjóðgarðinn. Verður að telja eðlilegt að þessi kortlagning taki einhvern tíma og því mun kortið ekki verða hluti af reglugerð um Vatnajökulsþjóðgarð við setningu hennar heldur innan tveggja ára frá stofnun þjóðgarðsins þegar verndaráætlunin liggur fyrir.
    Rétt þykir að gefa þeim sem hafa til þessa unnið í þjóðgarðinum í Jökulsárgljúfrum og Skaftafellsþjóðgarði, sem gert er ráð fyrir að renni inn í nýjan Vatnajökulsþjóðgarð, kost á að sinna áfram sömu verkefnum í þjónustu hinnar nýju stofnunar. Er því í 3. tölul. lagt til að lögin kveði á um forgangsrétt þeirra til starfa hjá Vatnajökulsþjóðgarði á fyrsta starfsári þjóðgarðsins, þ.e. eftir að hann verður formlega stofnaður með reglugerð. Jafnframt er lagt til að í þeim tilvikum sem hér um ræðir megi víkja frá ákvæðum laga um auglýsingu opinberra starfa sem laus eru til umsóknar.
    Í frumvarpi þessu er lagt til nýtt stjórnfyrirkomulag þjóðgarðs sem ekki hefur verið reynt áður. Aðkoma sveitarfélaganna að stjórninni er mikil þó að þjóðgarðurinn verði rekinn að meginstefnu til fyrir fjármagn úr ríkissjóði. Samspil áhrifa og ábyrgðar stjórnar, svæðisráða og þjóðgarðsvarða og samskipti þeirra á milli eru að sumu leyti flókin og ekki víst að unnt sé að sjá allt fyrir sem upp getur komið í þeim efnum. Því er eðlilegt að eftir nokkurra ára framkvæmd laganna verði litið yfir farinn veg og stjórnfyrirkomulagið endurskoðað í ljósi reynslunnar ef þörf krefur. Í 4. tölul. er lagt til að þetta verði gert eigi síðar en 1. janúar 2013.



Fylgiskjal I.


Vatnajökulsþjóðgarður.
Skýrsla ráðgjafarnefndar umhverfisráðuneytisins
um stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs.
(Nóvember 2006.)



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.






Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.







Fylgiskjal II.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

                        

Umsögn um frumvarp til laga um Vatnajökulsþjóðgarð.

    Frumvarpi þessu er ætlað að leggja grunn að stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs. Garðurinn verður stærsti þjóðgarður á Íslandi og jafnframt sá stærsti í Evrópu og munu núverandi þjóðgarðar í Skaftafelli og Jökulsárgljúfrum m.a. verða innan hans. Gert er ráð fyrir að Vatnajökulsþjóðgarður verði ríkisstofnun með sérstakra stjórn sem m.a. sinni stefnumótun og annarri almennri yfirstjórn, þar á meðal gerð fjárhagsáætlunar, en að öðru leyti verði garðinum skipt í fjögur rekstrarsvæði sem rekin skulu sem sjálfstæðar rekstrareiningar á ábyrgð þjóðgarðsvarða sem stjórnin ræður. Umhverfisráðuneytið hefur lagt fram kostnaðaráætlun þar sem gert er ráð fyrir að uppbygging þjóðgarðsins fari fram jafnt og þétt á næstu árum og ljúki árið 2012. Áætlað er að stofnkostnaður verði 1.150 m.kr. Þar af eru 740 m.kr. vegna byggingar á fjórum nýjum gestastofum ásamt endurbótum á gestastofunni í Skaftafelli, 121 m.kr. vegna byggingar á ellefu starfsstöðvum landvarða og 289 m.kr. vegna ýmiss annars kostnaðar, svo sem gerðar göngustíga, verndaráætlana, deiliskipulags, hönnunar, sýninga o.fl. Áætlað er að kostnaður við rekstur og viðhald þjóðgarðsins verði 325 m.kr. á ársgrundvelli eftir að hann verður að fullu uppbyggður. Er það 235 m.kr. hækkun kostnaðar frá því sem rekstur þjóðgarðanna í Skaftafelli og Jökulsárgljúfrum og annarra friðlýstra svæða, sem innan Vatnajökulsþjóðgarðs lenda, kostar núna. Á móti kemur að gert er ráð fyrir að tekjur fyrir aðgang að garðinum hækki um 30 m.kr. frá því sem þær eru í dag og verði 75 m.kr. á ári. Samkvæmt því mundi framlag ríkissjóðs þurfa að hækka um 205 m.kr., eða úr 45 m.kr. í 250 m.kr. á ári, til að endar næðu saman.
    Fjármálaráðuneytið gerir í sjálfu sér ekki athugasemdir við framangreindar kostnaðartölur en áréttar að uppbygging og rekstrarumfang Vatnajökulsþjóðgarðs mun að sjálfsögðu ráðast af fjárveitingum fjárlaga hverju sinni.